7.10.2009 | 21:14
Skárri af svíninu en slæmur í fætinum
Er nú orðinn mun skárri af þessari svínaflensu, er ennþá dálítið slappur en allt á mjög góðri leið. En það er nú annað sem er að hrjá mig og það er blessaður fótleggurinn. Mér er búið að vera mjög illt í fætinum síðan ég kom heim úr Rjóðrinu á mánudaginn fyrir rúmri viku. Þegar ég var lagður inn á sunnudaginn var ég myndaður á fæti en allt virtist vera í góðu lagi. Í dag fór ég svo aftur í myndatöku enda enn alveg að drepast í fætinum og CPR-ið ennþá hátt hjá mér. Þar kom í ljós að ég er úr lið í mjaðmalið og það virðist ekki vera hægt að kippa mér aftur í lið. Ökklinn er bólginn og hugsanlega einhver sýking í liðum og á morgunn fer ég í svokallaðan Isotopa skanna til þess að finna út hvað nákvæmlega amar að. Við látum vita hvað kemur út úr þessu.
Eitt annað sem við vildum koma á framfæri en það eru nú tækjamálin á barnaspítalanum. Þegar við mætum á sunnudaginn upp á Bráðamóttöku er Ragnar Emil alveg bundinn við Bi-Pab vélina sína. Bi-Pab vélin og hóstavélin þurfa rafmagn til þess að virka. Á kvöldin og um helgar er barnaröntgen lokað og þarf því að fara yfir á fullorðna röntgen. Það er nú ansi löng leið og langt að trilla rúminu og borðinu með tækjunum yfir. En alvarlegasti hluturinn er sá að það eru ekki til nein einustu batterí sem geta séð tækjunum fyrir rafmagni á leiðinni yfir. Við vorum reyndar með gamalt batterí sem við notuðum í sjúkrabílnum á leiðinni en það batterí er orðið lélegt og þolir bara að vera án rafmagns í nokkrar mínútur. Við gátum sett í samband í sjúkrabílnum og svo gátum við sett aftur í samband þegar við vorum komin inn á bráðamóttöku. En þegar við ætluðum að fara yfir í röntgen í myndatöku var lítil sem engin hleðsla eftir á batteríinu og ekkert slíkt til á barnaspítalanum. Því var ekki um annað að ræða en að hlaupa með rúmið og borðið yfir í röntgen. Mamma, Ella Karen og ein hjúkkan stóðu sem sagt í ströngu með að hlaupa með mig yfir í röntgen, með mörgum stoppum því við þurftum alltaf að hlaupa að næstu innstungu og setja í samband því tækin voru sífellt að drepa á sér. Við athuguðum alltaf hvar næsta innstunga var og svo var tekinn spretturinn. Og oftar en einu sinni var Bi-papið búið að drepa á sér og það var ekki gott fyrir mig enda var það það sem hélt í mér lífinu. Leiðin til baka var eins og þegar ég var fluttur upp á barnadeild var fenginn læknir til þess að koma með okkur upp með ambupoka og súrefniskút ef allt færi á versta veg í lyftunni. Úff þetta var nú meiri dagurinn ;) En mamma, Ella Karen og hjúkkan fengu nú fína líkamsrækt hehe.
En að öðru skemmtilegu, Silja og mamma fóru í foreldraviðtal í dag og kennarinn hennar Silju var mjög ánægð með Silju í skólanum. Hún sagði að hún væri mjög dugleg, einbeitt og vinnusöm við lærdóminn og flygi áfram í lestrinum. Hún sagði líka að henni þætti rosalega skemmtilegt að fá heimalærdóminn hennar því hann væri svo flottur hjá henni. Ekki amalegt það hjá stóru systur minni.
Svo eru Siggi og Silja bæði komin í sundfélagið og fara á sundæfingar 2var í viku. Þau hafa mjög gaman af og eru nánast orðin flugsynd, farin að synda skriðsund og hvaðeina.
Jæja, látum vita hvað kemur út úr skannanum á morgunn.
Kveðja, Ragnar Emil hetjustrákur og ritarar.
Athugasemdir
Ekki gott að heyra með fótinn á þér, vonandi verður hægt að kippa honum í lið fljótlega svo þér fari að líða betur. Það er nú agalegt að það sé ekki hægt að fara með þig í röntgen nema að þú sért í hættu spítalinn verður nú að bæta úr þessu. Þú ert nú alger hetjustrákur og verður vonandi fljótur að jafna þig á öllu þessu. Knús yfir til ykkar.
Kv, Eva og co
Eva Hrund og co. (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 21:38
Það er gott að heyra að þú sért betri af flensunni en mikið er erfitt að heyra með fóttinn þinn. Vonandi verður hægt að gera eitthvað fljótt til að þér geti nú liðið betur.
Þetta með rafmagnið er hreint ótrúlegt en tækið hjá vonkonu þinni hér í LUX er sem betur fer með batterí í allt að þrjá tíma. Hins vegar er maskinn mjög slæmur og getur oft verið hættulegur og því langar mig að biðja mömmu þína og pabba að senda okkur ef þau geta upplýsingar um gel maskann.
Baráttukveðjur frá LUX. Egill og co.
Egill Reynisson (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 23:30
Alveg undarlegt að ekki skuli vera til batterí fyrir svona ferðir
Ragnheiður , 8.10.2009 kl. 09:56
Gott að heyra að svínaflensan er að fara. Vonum að þú lagist í fætinum hið fyrsta sæti!
knús
Gunna og co (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 12:59
Leiðinlegt að heyra með litla fótinn þinn. Vonandi verður hægt að finna út úr þessu og kippa í lag með sem minnstri fyrirhöfn.
Hafðu það sem allra best, skilaðu kveðju til fjölskyldunnar. Gaman að heyra hvað Silja er dugleg í skólanum sínum.
Anna María, Gummi og Inga Lilja (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 15:22
Elsku litli kallinn minn!
Þetta er nú meiri lífseynslan sem þú ert búinn að ganga í gegnum undanfarið. Vonandi liggur leiðin nú upp á við eftir þetta allt saman. Segðu pabba og mömmu að þau verði að vera dugleg að láta vita hvernig gengur. Amma Odda er búin að prjóna flott teppi handa þér. Það bíður eftir að ferðast til þín í Hafnarfjörðinn.
Flott að heyra hvað Silju gengur vel í skólanum og gott að heyra að hún og Siggi skuli vera farin að æfa sund. Það er nefnilega allra meina bót að æfa sund.
Kveðjur og knús til allra.
Amma Áslaug.
Áslaug Rafnsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 19:38
Elsku strákurinn þetta er alveg svakalegt að heyra vonandi er þetta bara upp á við núna hjá þér.En gaman að heyra af Siju og Sigga að þau séu komin í sundfélagið gott hjá þeim.Og rosalega er Silja dugleg í skólanum flott hjá henni.Knús á ykkur öll kveðja frá Hraunstíg
Anna María Þorláksdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 11:26
hva, eru þau ekki að fylgjast neitt með þer i rjoðrinu og passa uppa þig??
gaman að heyra að þu sert komin heim litli kall! gangi ykkur vel , kv Ragna og co
Ragna (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 16:25
Þú varst flottur í sjónvarpinu áðan, við fengum gæsahúð þegar við sáum þig svona flottann. Verst að fréttin snérist um veikindin þín, en það kom samt fram hversu flottur og duglegur þú ert.
Við hugsum oft til þín og vonum að þú náir þér sem fyrst af flensunni og fótameininu og komist heim.
Mummi og Fjóla (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.