Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
25.6.2009 | 00:59
Afmælisstrákur :)
Ég á afmæli í dag, ég á afmæli í dag, ég á afmæli sjálfur, ég er tveggja ára í dag
Í dag, 25. júní er ég 2 ára gamall og það mætti halda að ekkert barn hafi áður orðið 2 ára því þvílík er gleðin. En það er nú ekkert skrítið því þegar ég greinist með SMA sjúkdóminn eru foreldrum mínum tjáð það að mjög líklega myndi ég ekki ná 1 árs aldri og alls ekki 2 ára. En ég er hér enn í fullu fjöri og eldsprækur, gengur betur með mig en flest allir áttu von á og er ég algjör kraftaverka strákur. Mamma og pabbi eru að missa sig úr monti yfir mér því ég er jú svo flottur og duglegur strákur, hehe.
Jæja, mamma búin að monta sig í bili. Það verður nóg að gera hjá mér um helgina, 2 afmælisveislur og fjör. Kannski fæ ég smá pakka líka og jafnvel ef ég verð mjög stilltur þá fæ ég kannski að sleikja smá krem af afmæliskökunni, það verður sko toppurinn.
Svo á afi Bóbó líka afmæli í dag, til hamingju afi Bóbó
Risaknús til allra frá Kvistavallabúum sem eru í þjóðhátíðarskapi
Já og svona eitt enn, kom heim af spítalanum síðasta mánudag, gleymdi víst að nefna það. En ég er orðin nokkuð góður og ætla að vera í essinu mínu um helgina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
18.6.2009 | 10:32
Farinn á spítalann
Er kominn með einhverja pest, var orðinn frekar mikið slappur í gær og fór því upp á spítala um kvöldmatarleytið. Var með smá hitavellu, mikið slím, mikinn gröft í augum og erfiðaði mikið við öndun. Því var ekki um annað að velja en að skreppa upp á bráðamóttöku og láta kíkja á mig. Lungnamyndin var nokkuð fín þannig að þetta er sennilega ekki lungnabólga Eflaust eitthver vírus sem er að bögga mig og vonandi hristi ég þessa pest af mér sem fyrst. Mamma og amma Ragna fóru með mér uppeftir í gær og fóru svo heim að sofa en ég svaf hjá hjúkkunum upp á 22E. Pabbi fór svo til mín í morgunn en mamma er heima með Sigga sem er líka lasarus. Silja greyið var send ein í leikskólann, hún var að reyna að gera sér upp einhver veikindi blessunin en það tókst ekki alveg, hehe. Hún á núna bara eftir 2 vikur í leikskólanum og svo er hún hætt í leikskóla
Systkini mín náðu nú samt að skella sér á smá hátíðarhöld í gær, pabbi og amma fóru með þau í skrúðgöngu og fleira skemmtilegt á meðan við mamma höfðum það rólegt heima.
Við látum svo vita hvernig málin þróast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.6.2009 | 22:45
Kominn heim sæll og glaður
Er kominn heim úr Rjóðri, kom heim í gær og gekk þetta líka svona glimrandi vel. Allt gekk eins og smurt brauð, allir ánægðir. Ég var upp á mitt besta og var alsæll innan um allt þetta yndislega fólk, mamma og pabbi voru alsæl með allt saman og starfsfólkið var yfir sig hrifið af mér :)
Mamma og pabbi gátu sinnt systkinum mínum vel um helgina. Þau fóru í húsdýragarðinn á laugardaginn og enduðu góðan dag með grilli í frábæru veðri. Á sunnudaginn fóru þau í siglingu og skoðuðu sig um á höfninni í Hafnarfirði sem átti einmitt 100 ára afmæli. Gaman að fá smá smjörþef af "venjulegu" fjölskyldulífi. En mikið yrði nú gaman ef ég gæti nú einhvern tímann fengið að fara með, það er allavega vonin, þarf að bíða aðeins betri tíma og að farartækja mál verði komin í lag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.6.2009 | 19:51
Rjóður og fleira
Þegar við komum heim úr hvíldarinnlögn á mánudag í síðustu viku var víst ekkert öll flensan farin úr mér því mér fór svo versnandi næstu daga. Á miðvikudaginn í síðustu viku var ákveðið að fara með mig aftur inn á spítala og fékk ég sýklalyf í æð. Var búin að vera á sýklalyfi og það var alls ekkert að virka. Átti nokkra erfiða daga, féll til dæmis einu sinni langt niður fyrir hættumörk, talan á mælinum sýndi 6 í súrefnismettun sem er fáránleg tala. En Ella mín og Hanna ofurhjúkka tóku vel á mér og blésu í mig með ambubag. Um helgina var ég svo orðin nokkuð góður og útskrifaðist ég svo á þriðjudag í mínu fínasta formi.
Í gær fór ég hinsvegar í Rjóðrið í aðlögun. Mamma og pabbi voru hjá mér fyrsta sólahringinn og svo verða þau að koma og fara yfir helgina en ég kem heim á mánudag. Mamma var hjá mér í nótt og fór mjög vel um okkur saman. Pabbi skrapp svo inneftir núna til þess að hjálpa yndislega starfsfólkinu að koma mér í bólið. Það gengur ofsalega vel og er ég alsæll með allar þessar nýju stelpur sem eru að hugsa um mig.
Ég er orðinn svo sniðugur, er farinn að fela mig með hendinni og lyfta svo hendinni þegar mamma segir "Hvar er Ragnar Emil?" Þetta finnst mér alveg ferlega sniðugt og hlæ og hristist af ánægju.
Svo eru komnar inn fullt af nýjum myndum á Barnaland :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)