1.7.2010 | 00:55
3 ára :)
Þið verðið að afsaka seinaganginn í foreldrum mínum en lítið hefur verið bloggað að undanförnu.
Auðvitað er aðalfréttin sú að ég er orðinn 3 ára gamall :)
Ég átti afmæli síðasta föstudag en mamma og pabbi voru í útlöndum og ég í Rjóðrinu. Ég fékk samt heimsóknir á afmælisdaginn minn, systkini mín mættu með pakka og kossa sem og ömmur mínar og afar :) Ég ætla svo að halda afmæli fljótlega, mamma er bara ekki alveg búin að ákveða sig hvenær, hún er enn svo þreytt eftir ameríkuferðina.
Ég er byrjaður á leikskóla, sami leikskóli og Silja var í og Siggi er enn í, en það er Hraunvallaskóli. Þau hafa reyndar líka bæði verið á deildinni minni en deildin mín heitir Hóll og eru mamma og pabbi ofsalega ánægð þar og báðu sérstaklega um að ég fengi að vera þar. Ég er 2 morgna í viku, frá 9-11. Ella mín og mamma fara með mig á morgnana og svo sækir hún okkur Ellu um 11. Þetta gengur eins og í sögu, krökkunum finnst ég bara flottur strákur og mér finnst krakkarnir bara nokkuð spennandi. Svo ef gengur vel þá munum við auka tímann í leikskólanum smátt og smátt.
Það er líka nóg að gera í græjumálum. Ég er kominn með rafmagnshjólastól, sem á reyndar eftir að sérhæfa fyrir mig því það er ekki búið að samþykkja hann frá TR. En ég er samt aðeins farinn að keyra og gengur það bara ágætlega. Ég er líka kominn með nýtt bað (sem reyndar vantar tappa í ennþá, hehe) og svo var ég að fá samþykktan stand sem kemur vonandi fljótlega. Ég er líka á fullu að æfa mig í tölvunni og með rofanna mína, það er sko mikið prógramm í gangi fyrir svona flottan gaur eins og mig.
Mamma og pabbi komu heim í gær af ráðstefnu sem haldin var í San Jose í Californiu i Bandaríkjunum. Þau fóru í vikuferð á SMA ráðstefnu, sem haldin var á vegum FSMA í Bandaríkjum (Families of Spinal Muscular Atrophy). Þar hittu þau sérfræðinga í SMA börnum, foreldra og litlar hetjur eins og mig. Ferðin var frábær í alla staði og afar dýrmæt lífsreynsla fyrir mömmu og pabba. www.fsma.org
Á meðan mamma og pabbi voru úti var ég í Rjóðrinu og Silja og Siggi hjá ömmu og afa. Reyndar fór Siggi yfir helgina til ömmu og afa á Akranesi. Á mánudag sóttu svo amma Ragna og Ragga sjúkraliði mig og fóru með mig heim. Þær gistu svo heima með mig og systkinin mín og mamma og pabbi komu svo heim þriðjudagsmorgun. Þetta gekk allt saman eins og í sögu. Reyndar þurfti ég aðeins að skreppa á laugardag upp á bráðamóttöku. Ég var kominn með sýkingu í hnappinn minn og þar sem ég var nýbúinn á sýklalyfjakúr við sama veseni fékk ég sýklalyf í æð. Ella Karen fór með mig uppeftir og amma Ragna tók svo við og fór svo með mig aftur í Rjóðrið um kvöldið. Ég er enn að klára skammtinn minn og vonandi fer þessi blessaði hnappur að vera til friðs.
Hérna vinstra megin á síðunni settum við inn styrktarreikninginn minn en vegna margra fyrirspurna var okkur bent á að setja hann hér inn. Okkar innilegustu þakkir til allra þeirra sem hafa styrkt okkur og þeirra sem eru okkur til halds og traust í þessari endalausu baráttu. Baráttan er sko að skila sínu, ég er algjör kraftaverkastrákur með framfarir á öllum sviðum sem allir eru gáttaðir yfir.
Svo koma hér að neðan nokkrar myndir frá brölti mínu síðustu mánaða.
Knús í hús :)
Athugasemdir
Hæ sæti Ragnar Emil;)
Æðislegar allar nýju myndirnar af þér, þú ert svo mikill töffari og duglegastur í öllum heiminum. Frábært hvað Ameríkuferðin hjá mömmu og pabba var góð og gagnleg en þú ert nú örugglega feginn að fá settið aftur heim í hús.
Stórt knús frá Brynju,Mikka og Binna;)
Brynja Sif Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 08:25
Alltaf gaman að fá fréttir. Aftur til hamingju með afmælið. Ofsalega gaman að skoða myndirnar þínar.
Kveðja frá Álftanesinu.
Anna, Gummi og stelpurnar (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 11:54
Hæ,hæ sæti.
Til hamingju með afmælið í síðustu viku, þú ert nú alger hetjustrákur ;) Við hlökkum til að sjá þig á stólnum þínum bruna um allt :)
Kv, Eva og co
Eva Hrund og co (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 17:41
Yndislegt að heyra - þið eruð bara flottust öll sömul:)
Ragnar, það er svo gaman að sjá hvað þú ert orðinn öflugur, kominn á leikskóla, farinn að keyra rafmagnsstól og ert út um allt :) Þannig á það að vera!
Freyja Haralds (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 20:31
Hjartanlega til hamingju með afmælið stóri og sterki strákur. Var rosalega gaman að fá að kynnast þér á leikskólanum :)
Kveðja
Hildur Sonja
Hildur Sonja (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 20:52
Flottar myndir af þér. Til hamingju með þriggja ára afmælið þitt
Ragnheiður , 2.7.2010 kl. 16:00
It was so great meeting you two at The FSMA conference!! You two are so inspirational and you do a wonderful job with Ragnar!!
We loved spending time with you after corresponding for over two years!
Next year I hope to see you in Orlando!!
Jeanna, Christen and Lizzy (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 02:52
Innilega til hamingju með afmælið um daginn (betra seint en aldrei að óska þér til hamingu :O)) Þú ert orðin alveg svakalega stór og ég er ekki frá því að þú hafir stækkað heilan helling, við það að verða 3ja ára :)
Gaman að sjá myndir af þér um allan bæ, ekkert smá mikill töffari :) Er ekki komin tími til að við Pálmar kíkjum á ykkur?
knús í kotið :O)
Unnur og Pálmar (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 20:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.