29.1.2010 | 23:10
Algjör lasarus
Ég er búinn að vera algjör lasarus síðustu daga. Á mánudagsmorguninn síðasta byrjaði ég að fá hita og verki. Var aumur og lítill í mér en aðfaranótt þriðjudags var hitinn kominn upp í 40 gráður. Mamma og pabbi vildu nú sjá til með mig og héldu mér heima, gáfu mér verkjalyf og héldu hitanum og mestu verkjunum niðri. Ég fór á sýklalyf strax á þriðjudagsmorgun og svaf ég svo allan daginn að mestu og fram á næsta dag. Á miðvikudag var ég ekkert að skána, fór hinsvegar versnandi og verkirnir orðnir enn meiri. Grét bara og grét og náði illa að slaka á. Púlsinn búinn að vera mjög hár og ég dormaði allan daginn í einhverju móki. Seinnipart þriðjudags og svo eftir hádegi á miðvikudag var ég mikið að kúgast og kom dálítið af gubbi upp í gegnum sonduna mína. Á miðvikudag var því ekkert annað að gera en að stoppa næringuna mína og koma mér upp á spítala.
Þá var ég með CRP í 200 og hækkun á hvítum blóðkornum og var því að sjálfsögðu lagður inn með vökva og lyf í æð. Var ég líka orðinn nokkuð þurr og eitthvað af próteini í þvaginu og lár í kalíum. Tekið var RS próf og kom það próf jákvætt út. Daginn eftir var tekið nákvæmara próf og kom þá í ljós að ég er ekki með RS en ég er með mjög skylda vírussýkingu sem heitir human metapneumo vírus. Sá vírus er mjög líkur RS vírus en leggst í aðeins eldri börn en RS. Flest börn þola þennan vírus og fá aðeins smá kvef en getur verið ansi erfiður langveikum börnum, sérstaklega þeim sem eiga við öndunarerfiðleika að stríða. Þessi vírus er lungnavírus eins og nafnið gefur til kynna og fylgir honum mikill hósti og slím og oft lungnabólga. Einnig eru um það bil helmingslíkur á hita og smá líkur á niðurgangi, hitakrömpum og eyrnabólgu svo eitthvað sé nefnt. Ég er búinn að vera með mikinn hita, mikla verki og slímið hefur farið vaxandi síðustu daga. Einnig með talsverðan niðurgang og mjög háan púls. Við reyndar höldum að ég sé líka með einhverja aðra pest, mjög líklega einhverja inflúensu.
Ég er búinn að vera algjörlega háður öndunarvélinni og fer í panik þegar einhver reynir að snerta grímuna mína. Er meira og minna búinn að sofa síðustu daga en gat haldið mér aðeins meira vakandi í dag og bablaði meira að segja örlítið yfir Latabæ og gaf Ellu minni smá langþráð bros í leiðinni.
Það er endalaust verið að taka úr mér prufur og var tekið enn eina ferðina í dag. Kom í ljós að ég er enn mjög lár í kalíum og var því settur á kalíumkúr, eins gott að reyna að halda öllum söltum líkamans í jafnvægi. En CRP-ið hafði lækkað mikið úr 200 niður í 82 sem er mjög gott. Hvítu blóðkornin eru því eflaust á niðurleið líka. Við eigum eftir að fá niðurstöður ennþá úr nokkrum blóðprufum og úr sýnatöku úr hnappnum mínum sem er búinn að vera smá til vandræða.
Ég fæ þó alltaf mína toppþjónustu, mamma og pabbi skipta á milli sín að vera hjá mér sem og starfsfólkið mitt fína. Sandra og Ragga sáu um mig að hluta í gær og Ella Karen var hjá mér í dag. Siggi ætlar að vera hjá ömmu og afa á Akranesi um helgina og Silja ætlar að gista hjá Ciöru frábæru vinkonu í Grindavík á morgun. Pabbi ætlar aðeins út úr bænum með æskuvinunum og hvíla aðeins lúin bein á morgun og mamma og afi ætla að vera hjá mér. Þetta er klárlega púslfjölskyldan mikla og erum við nokkuð lunkin í því
Nú ætlar mamma ritari að skella sér í bólið með Silju sinni en þær eru búnar að hafa það kósý heima í kvöld.
Knús til allra og endilega að muna eftir að kvitta, það er mjög gaman að sjá hverjir eru að fylgjast með okkur
Athugasemdir
Hæ elskurnar. Búin að hugsa til ykkar á hverjum degi! Gott að fá að fylgjast svona vel með og frábært að heyra að cpr er á niðurleið.
Sendi ykkur góða strauma! Hlakka til að hitta hann aftur hressan og brosandi.
Kærar kveðjur Gyða hjúkka
Gyða Pálsd. (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 23:29
Elsku Aldís mín og fjölskylda.
Óskandi að litla hetjan ykkar fari að braggast. Hugsa til ykkar.
Hlýjar kveðjur
og stórt knús í ykkar hús.
Ragga (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 00:38
Elsku Ragnar Emil og þín frábæra púslfjölskylda,
þið eruð alltaf í mínum bænum.
Vonandi hristir þú þetta af þér fljótt eins og þín er von og vísa.
Batakveðjur, Ingibjörg
ingibjörg þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 01:36
Kæra Aldís og fjöldskylda ,
Kveðjur til ykkar og Vonandi hristir hetjan þetta fljótt af sér
Hlýjar barátukveðjur
Gestný Bjarnadóttir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 02:22
Hæ, hæ kæra fjölskylda. Hugsum mikið til ykkar og hafið það gott um helgina. Vonandi tekst Ragnari Emil að hrista þetta af sér á sem skemmstum tíma.
Anna María, Gummi og Inga Lilja (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 08:46
Kæra fjölskylda.
Gangi ykkur vel í baráttunni.
Óskandi að Ragnar Emil fái sinn styrk aftur fljótlega.
Hugsum til ykkar , kveðja Knús Sollý og Ægir
Sollý og Ægir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 10:35
Hæ frábæra og duglega fjölskylda,
fylgist alltaf með og sendi ykkur batakveðjur !!! Frábært að Ragnar Emil sé aðeins farinn að babla yfir Latabæ :) Íþróttarálfurinn klikkar ekki.
Baráttukveðjur til ykkar allra og þið eigið sannarlega góða að í kringum ykkur :)
Hjördís Ósk (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 10:35
Gangi ykkur vel kæra Aldís. Við hugsum til ykkar og sendum Ragnari Emil hetjunni miklu okkar hlýjustu batakveðjur. Það gætu margir lært af æðruleysi ykkar.
Kærar kveðjur frá okkur Ómari
Elín R. Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 13:22
Elsku Aldís og fjölskylda
Sendi ykkur barátukveðjur og von um að allt gangi vel
kveðja Harpa frænka og fjölskylda
Harpa Geiradóttir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 15:20
Vonandi fer litla manninum nú að líða betur. Hugsa oft til ykkar.
Kærar kveðjur frá mér og Reyni
Sigríður Helga Sveinsd. (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 15:56
Leiðinlegt að heyra af þessum veikindum, við sendum okkar bestu kveðjur og vonum að kappinn komist heim sem fyrst :*
Elísabet manma Fanneyjar Eddu (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 16:47
Elsku kall, vonandi fer þér að líða betur Hugsa til þín... og ykkar allra auðvitað!
Freyja Haraldsdóttir, 30.1.2010 kl. 19:26
vonandi birtir til hja litlu hetjunni ykkar fljotlega. barattukveðjur!
Ragna og co
Ragna (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 22:14
batakveðjur frá mér og mínum
Harpa Lúthersdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2010 kl. 23:42
vonandi ferðu nú að hressast, litli töffari :) Er flottastur og duglegastur og átt eftir að hrista þessu af þér von bráðar:O)
Unnur og strákarnir (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 00:00
æjj litli kallinn,, mikið hugsa ég sterkt til ykkar,, sendi sterkar baráttukveðjur og vonandi þurfið þið ekki að stoppa lengi á gjörgæslunni,,skilaðu stóru knúsi til hanns frá mér***
Ragnhildur J. (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 11:29
Æj elsku litli kallinn,,vonandi hristir hann þetta af sér sem fyrst..Batakveðjur til ykkar allra Aldís mín
Hanna Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 12:40
Bata- og baráttukveðjur til ykkar, bestustu kveðjur
Áslaug Helga Hálfdánardóttir, 31.1.2010 kl. 12:51
Kæra fjölskylda, ég vona innilega að Ragnar nái sér sem fyrst. Hugsa oft til ykkar.
Bestu kveðjur, Auður
Auður Árnadóttir (IP-tala skráð) 31.1.2010 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.